froskur útgáfa

                                 Vatnagarðar 14 - 104 Reykjavík - sími: 565 4031 - froskur@myndasogur.is - www.myndasogur.is

Smelltu á lógó

 
 

Þrjár nýjar íslenskar bækur!

 
 

Hvað mælti Óðinn? er frjálsleg endursköpun á eddukvæðinu Vafþrúðnismálum, einu elsta og vanmetnasta snilldarverki íslenskrar bókmenntasögu.
Kvæðið lýsir háskalegri fróðleikskeppni Óðins og jötunsins Vafþrúðnis en birtir um leið heimsmynd heiðinna manna með eftirminnilegum hætti. Samkvæmt Vafþrúðni var jörðin upphaflega smíðuð úr skrokki jötunsins Ýmis en hann spáir jafnframt fyrir um endalok Óðins og fleiri guða í Ragnarökum.
Bjarni Hinriksson og Jón Karl Helgason eru höfundarnir.

 

Vargöld er eftirÞórhallur Arnórsson, Jón Páll Halldórsson og Þórir Karl Bragason. Í vægðarlausri veröld Óðins eru mönnum sköpuð örlög – og ekki alltaf blíð.
Vikar telur sig vera kominn í örugga höfn og brátt á frumburður þeirra Grían að fæðast. En goðin hafa annað í huga. Ófriðarbál tendrast og mikil átakatíð er í vændum.
Vargöld er metnaðarfull myndasaga um goð og menn á heiðnum tíma sem teygir sig um heima alla, allt frá upphafi veraldarinnar til endaloka hennar.

 

Ímyndaðu þér hvernig það er að hafa ofurkrafta. Að geta flogið, lyft húsum, séð í gegnum veggi og skotið geislum úr augunum. Að geta farið í lautarferð á tunglinu. Að geta rænt banka á einni sekúndu. Að geta bjargað heiminum. Ímyndaðu þér hvernig það er. Og ímyndaðu þér að það eina sem þú þurfir að gera til að öðlast þessa krafta … sé að éta skít.
Þetta er fimmta bókin í Endalok seriunni Hugleiks Dagssonar og í þetta sinn er Árni Jón Gunnarson við teikniborðið.

 

 

 

"Húrra fyrir Tinna!"

Ormhildarsaga

 
 

Hurray for TintinBirgir Rafn Friðriksson opnar sýningu "Húrra fyrir Tinna þó hann sé ekki til!" laugardaginn 5.nóv milli kl: 14-16 í Art67, Laugavegi 67. Sýningin stendur út nóvember.

 
Ormhildur

Árið er 2043. Jöklar heims hafa bráðnað og leyst úr læðingi fornar vættir. Á Fróneyjum reika nykrar, skoffín og nátttröll um göturnar en íbúar hafa lært að lifa í sambúð með þessum hættulegu þjóðsagnaverum.
Ormhildur, ungur fræðimaður hjá Kukl- og galdrarannsóknarsetri ríkisins, hefur fundið fornan seið sem læsir kvikindin aftur í klakabrynju. En til að fremja galdurinn þarf hún að komast á tind Heklu. Hennar bíður langt og hættulegt ferðalag frá Breiðholtseyju. Hún leitar á náðir Heimavarnarliðsins en í ljós kemur að það vilja ekki allir hverfa aftur til tíma tvöfaldra mokka frappuccino og sólarlandaferða.

 

 

Nýjar bækur frá Froski Útgáfu stytta biðina eftir jólunum!

 
 

Ástríkur í PiktalandiÍ vor komu út nýjustu bækur með þeim Lóu og Tímaflökkurunum Soffíu og Snorra og voru vel teknar.
En margir bíðu eftir áframhaldandi útgáfu á Ástríki og Viggó. Þær bækur eru komnar á markað. Ástríkur í Piktalandi er fyrsta bókin þar sem hvorki Goscinny né Uderzo taka þátt. Ástríkur og Steinríkur finna ísklump við strönd Gaulverjaþorps og inn í honum er undarlegur frosinn maður. Eftir að hann rankar við sér er silgt með hann til síns heima til Piktalands. Þar eru kosningar að fara í gang um nýjan foringja og rómverjar blanda sér í pólitík héraðsins. Fyrsta tilraun Ferry og Conrad í að viðhalda vinsældum Ástríks og Steinríks tekst ágætlega en það er ekki á færi allra að feta í spor Uderzo og Goscinny.

 

Viggó 3Það er ekki hægt að stoppa Viggó í viðleitni sinni til að bæta vinnuumhverfi sitt. Það er reyndar álitamál margra um það hvernig hann fer að því. Valur er með þetta á hreinu. Það má ekki hleypa þessum starfskrafti eða öllu heldur starfsleysingja inn um skrifstofudyrnar annars fer tíminn í allt annað en að flokka póstinn. Uppfinningar, viðgerðir og aðrir slökkunartímar eru aðal viðfangsefni Viggós. Hvernig gæti hann eytt þeim litla tíma sem eftir er af deginum til vinna fyrir laununum sínum?
Þessi bók gefur ekkert eftir þeirri fyrri sem kom út í fyrra og var fjórða í röðinni. Hún seldist upp á mettíma sem von er og sýnir vinsældir þessa manns.

 

InkalÁhugaverðasta bókin sem Froskur gefur út í ár er án efa Inkal eftir myndasögusnillingunum Moebius og Jodorowsky. Þessi fullorðins myndasaga er talin vera ein af meistaraverkum myndasögugerðar í heiminum í dag vegna nýstárlegrar söguflækju sem Jodorowsky leiðir lesandan í og frábærar teikningar Moebius sem auðga skáldverkið en það kom fyrst út 1980. Moebius er einn af stofnendum tímaritsins Métal Hurlant (Heavy Metal) sem fyrst kom út í Frakklandi með geðsýrukolbrjálaðar hugmyndir um nýjar stefnur í myndasögugerð. Þegar Jodorowsky og hann hittust til að gera Inkal var sameining tveggja orkubolta sem splundraði sýn myndasögubókmennta til frambúðar. Þessi fyrri hluti Inkals ætti engin að láta framhjá sér fara.

 

  Sýning Þorri

Kæj! Myndasögur í aldarfjórðung

Þorri Hringsson opnar myndasögusýningu í myndasögudeild Borgarbókasafnsins í Grófinni, Tryggvagötu 15. Úrval verka af yfir aldarfjórðungs löngum ferli Þorra í myndasögugerð verður til sýningar. Sýningin stendur til 2. janúars 2017

Á sýningu sinni veltir Þorri fyrir sér tengslum orða og mynda og hvernig orð verður mynd. Í tilefni Lestrarhátíðar skrifaði hann eftirfarandi hugvekju, sem hér er birt:

ORÐ VERÐUR MYND
Orðin eru frumefni tungumálsins. Þau eru óhlut- og staðbundin framsetning eða túlkun hugmynda og hugtaka sem geta borið margþætta merkingu. Frásögnin er keðja þessara orða sem lýtur sínum innri lögmálum en hefur í grundvallaratriðum það markmið að skýra samhengið milli einstakra hugmynda og hugtaka.

Eins og orðið ber með sér er myndin sjónræn framsetning hugmynda og hugtaka, formræn túlkun á veruleikanum og getur ýmist verið hlutlæg eða óhlutlæg. Hún einfaldar og einangrar þann sýnilega veruleika sem hún vísar í en magnar um leið hugmyndina sem hún vill draga fram. Hugmyndin sem myndin kveikir vísar svo aftur í orðin sem við notum.

Myndasaga er í eðli sínu frásögn og sú frásögn er oftast nokkuð línuleg en því fer fjarri að hún sé eingöngu bundin við það. Einkenni hennar eru stakar myndir sem lesandinn púslar saman, oftast að viðbættum texta. Samhengi frásagnarinnar verður svo til í tómarúminu á milli rammana og í þessu bili kviknar einnig tími hennar, sem þar líður og því má segja að myndasagan sjálf verði til úr engu. Hvernig hún er lesin er háð menningarlegum breytileika en í okkar vestræna samfélagi eru hún yfirleitt lesin frá vinstri til hægri. Að ofan og niður, rétt einsog orð á blaðsíðu. Keðja myndrænna hugtaka sem lýtur sínum eigin lögmálum.

Hugmyndir kveikja orð. Orð kveikja myndir. Myndir verða sögur. Sögur verða hugmyndir.

Samhliða ferli sínum sem myndlistarmaður hefur Þorri fengist við að gera myndasögur í rúman aldarfjórðung og verður úrval verka af löngum ferli hans til sýnis í myndasögudeild Menningarhúss Grófinni. Á meðal verka Þorra er bókin 1937 – Ævintýri Tinnu og Hreins Borgfjörð sem hann gaf út í samvinnu við Sjón árið 1989; myndasögur í öllum tölublöðum GISP! frá því að tímaritið hóf göngu sína árið 1990; auk annarrar útgáfu á Íslandi og í Skandinavíu.  Á meðal áhrifavalda hans eru Hergé og Milton Caniff, auk neðanjarðarhöfundanna Crumbs og Burns.

 

 

Blek LogoReykjavíkurtorgi, Menningarhús Grófinni, 3. - 25. september 2016
Afmælissýning í tilefni af tuttugu ára afmæli myndasögublaðsins Neo-Bleks
 

Myndasögublaðið NeoBlek á sér langa forsögu, en það hóf fyrst göngu sína sem Hazarblaðið Blek fyrir tuttugu árum síðan. Blek spratt upp úr átaksverkefni á vegum Hins hússins, þar sem ungum atvinnuleitendum bauðst tækifæri til að vinna að ýmsum hugðarefnum sínum.  Með hvatningu Björns Vilhjálmssonar hjá Hinu húsinu, sem sjálfur var og er ötull talsmaður myndasagna,  stofnuðu ungir menn úr átaksverkefninu saman Félag áhugamanna um myndasögur og gerð þeirra og réðust, að fenginni styrkveitingu frá Menningarmálanefnd Reykjavíkur, í útgáfu fyrsta tölublaðs Bleks.

Á ýmsu hefur gengið í þeirri grasrótarútgáfu sem Blek, og síðar NeoBlek, er og áðurnefndum ungum mönnum lærst eitt og annað. Fyrsta tölublað Bleks kom til að mynda út í eitt þúsund eintökum – sem kom á daginn að var nokkuð ofmat á eftirspurn eftir íslenskum myndasögum. Hópurinn var þó ekki af baki dottinn þó útgáfustyrkurinn væri uppurinn. Jean Posocco var fenginn til þess að standa fyrir námskeiði í myndasögugerð eftir útgáfu fyrsta tölublaðsins, en hann varð síðar lykilmaður í útgáfu blaðsins. Seinni tölublöð komu út í smærra upplagi og voru gefin út þegar nægt efni hafði safnast saman.

Ýmsir höfundar hafa stigið sín fyrstu skref í myndasagnagerð á síðum Bleks, Hugleikur Dagsson og Sigurður Ingi Jensson þar á meðal. Blaðið er nú gefið út af Jean Posocco og Froski útgáfu, sem NeoBlek, en það er eitt af örfáum íslenskum myndasagnablöðum.

Á afmælissýningu Bleks í Borgarbókasafninu verða til sýnis ýmis verk sem litið hafa dagsins ljós á síðum ritsins á tuttugu ára ferli þess. Í tilefni af sýningunni verður gefið út nýtt blað með alíslenskum myndasögum og sneisafullt af alls kyns aukaefni. Sýningin stendur til 25. september. Að sýningunni standa Björn Vilhjálmsson, Þorsteinn S. Guðjónsson og Jean Posocco.

 
  Blek 20 ára sýning

Jean og Blek

Blek 29 30  

 

Tímaflakkarar og Lóa snúa aftur!

 
 

Lóa 4

 

Lóa, Mína, Fatíma og María Emilía fara saman í sumarfrí á sólarströnd og dvelja ásamt foreldrum Maríu Emilíu í æðislega flottu húsi með sundlaug. En sumarfrí er ekki bara tími slökunar við bakka sundlaugar að rabba saman um næsta verslunarleiðangur, sumarfrí er líka tími ástar og þegar þær hitta fjóra stráka niður í bæ snúast dagarnir um að skemmta sér með tilvonandi kærustum. Í ástum er aldrei neitt öruggt og þær eins og þeir fá að kynnast því. Lóa kemur heim úr fríinu alveg ringluð og veit ekki lengur hvað er rétt og hvað er rangt...

 

Soffía og Snorri eru spennufíklar og hika ekki við að hoppa til fortíðar í leit að fróðleik. Þau reyna að koma Kristófer Kolumbusi í skilning um  að Ameríka sé í Evrópu og að hann þurfi ekki að fara langt til að finna fyrirheitna landið. Listmálarinn Hitler skilur ekki smekkleysi S. og S. (góður þessi) á listrænum hæfileikum sínum og fer eins og kunnugt er að dunda sér á öðruvísi nótum. Tesla er í óða önn að uppgötva allskonar fyrirbæri og fá einkaleyfi á þeim en fáir hlusta á hann. Soffía þolir ekki lengur hvað Snorri hámar mikið af hnetusmjöri í sig og hringir í sönggoðið Presley til að bjarga málunum! Á meðan reddar Jesús afmælispartíi sem annars hefði endað með gráti. Jahá, með Snorra og Soffíu verður lífið aaaðeins litríkara..

 

  Tímaflakkarar 4  

 

Blek 28Desember hefti NeoBlek 28 var að koma út
Framhaldssögur "Uppvakningur", "Deep" og "Sægarpur" eru á sínum stað. Magnús Kristinsson fer með okkur til Finnlands að heimsækja Múmíndalinn og það er farið á vinnustofu Fannars Þórs Bergssonar listamanns sem ljóstrar upp aðferð á bakvið listsköpun sína. Sigurlína Guðmundsdóttir tekur saman útgáfuárið 2015 fyrir Blek sem var ansi fjörlegt. Í þetta sinn verður heftið eingöngu sent áskrifendum
.
outre tombeDeepLoupdes mresTímaflakkarar case

 

 
SKOÐAÐU ÚRVALIÐ!
                  ÁSTRÍKUR OG KLEÓPATRA
 
 

Bæklingur 2015 Smelltu!


Árið 2016 byrjar með látum hjá Froski Útgáfu! Bókin Ástríkur og Kleópatra sem hefur verið ófáanleg í mörg ár hefur verið endurprentuð í nýrri þýðingu og endurbættri litasamsetningu.
Fyrst um sinn er bókin fáanleg í Nexus og á skrifstofu útgáfunnar.
froskur@myndasogur.is

Drottning drottninganna í Egyptalandi, hin dásamlega þrjóska Kleópatra, nær ekki upp í nefið á sér þegar Sesar gerir lítið úr þjóð hennar. Til að lækka rostann í þessum monthana fullyrðir hún að geta látið reisa handa honum höll á aðeins þremur mánuðum. Til þess fær hún í lið með sér færasta (eða hitt þó heldur) arkitekt Alexandríu, hann Beinlínis sem getur ekki teiknað beint strik og hannar rammskökk hús sem hrynja við minnsta álag. Það bætir ekki úr skák að keppinautur hans Alkapónis,einnig húsaarkitekt, er vonsvikinn yfir því að fá ekki verkefnið. Hann leggur allt í sölurnar til að ætlunarverkið mistakist. Í örvæntingu sinni leitar Beinlínis á náðir Sjóðríks og kjarnadrykksins. Auðvitað eru Steinríkur og Ástríkur með í för og sjá til þess að höllin rísi á tilsettum tíma. Rómverjar gera þeim erfitt fyrir, enda vill Sesar ekki tapa fyrir kærustunni. En allt fer vel að lokum. Beinlínis andar léttar og framtíð hans verður þakin gulli. Þeir einu sem ekki sigra eru krókódílarnir sem hlökkuðu svo mikið til að gæða sér á byggingameistaranum.

Ástríkru og Kleópatra  

 

Sýning Lilja borgarsafn

 

Myndasögusýning í myndasögudeild
"Teikn og allskonar fínt"

Föstudaginn 8. janúar kl. 16 opna þau Lilja Hlín Hólmfríðar Pétursdóttir og Sigmundur B. Þorgeirsson myndasögusýningu í myndasögudeild Borgarbókasafns í Grófinni. Lilja (1989) og Simmi (1985) eru bæði útskrifuð úr diplómanámi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Lilja stundar nú nám í hreyfimyndagerð við Sheridan í Ontario, Kanada og Simmi er með  B.F.A.-gráðu í ‚Entertainment Illustration‘ frá Laguna College of Art + Design í Kaliforníu. Lilja hefur teiknað helminginn af myndasögunni Ofan & neðan (2014), sem Hugleikur Dagsson skrifaði. Einnig hefur Lilja birt sögur í (gisp!) og Ókeipiss. Verk eftir Lilju má skoða á síðunum: liljahlin.tumblr.com og liljahlin.com.
Simmi hefur teiknað hinn helminginn af myndasögunni Ofan & neðan (2014), sem Hugleikur Dagsson skrifaði. Einnig hefur hann birt efni í Ókeipiss og Aðsvifum. Hann tók þátt í sýningunni B Minus Studios “PIVOT” í Los Angeles.  Verk hans má skoða á www.simmi.org. Á sýningunni sýnir Lilja myndasögur úr daglegu lífi erlendis sem og heima við og Simmi sýnir skissur af lokaverkefninu sínu úr skólanum, bókinni Super Viking Boy: When Alien Robots Attack! ásamt öðrum skissum og kúl stöffi.

 

         
 

Eldri færslur: 1;2;3;4;5;6;7;8;9;10

 

Myndasögur.is / Vatnagarðar 14 / 104 Reykjavík / Sími 565 4031 / myndasogur@myndasogur.is