Blek 1

Blek 2

Blek 3

Blek 4

Blek 5

Blek 6

Blek 7

Blek 8

Blek 9

Blek 10

NeoBlek 10

NeoBlek 11

NeoBlek 12

NeoBlek 13

NeoBlek14/15

NeoBlek 16


 

Enn fjölgar í fríðum hópi Blek-ara og þeir Bjarni Hinriksson vel þekktur Gisp-ari og Mick Morris ákafur bandarískur áhugamaður senda inn sínar sögur sem auka fjölbreytileika blaðsins enn frekar í þessu fimmta tölublaði. Að öðru leyti er það fastur kjarni Blekliða sem heldur áfram að skemmta lesendum með vel völdum myndasögum úr pússi sínu. Framhaldssaga Jan Pozoks er á sínum stað og víst er að framlög hinna eru bæði frumleg og fersk og fyrirtaks lesning.

 


Kjartan Arnórsson hefur í gegnum tíðina teiknað myndasögur sem fyllt gætu heilt bókasafn svo úr nógu er að velja fyrir hann til að senda inn efni. Fyrsta sagan er einmitt frá honum, það er hinn æsispennandi Íkorna-tryllir: “SQEEK-GRRCK "WHIIK-TRCK ITIC” sem segir frá kvenkyns íkorna í stórhættu þar sem grimmir glæpaíkornar hafa hana á valdi sínu. Hjálpin er þó alltaf næst þegar neyðin er stærst og á það við um íkornahetjur jafnt sem aðrar hetjur. Aftar í blaðinu er önnur myndasaga eftir Kjartan: Ótrúlegar staðreyndir um teiknimyndir! þar sem með einu litlu sýnidæmi fáum við lesendur útskýringar á því hvers vegna teiknimyndafígúrur hafa meira sársaukaþol en flest venjulegt fólk. Virkilega ótrúlegt efni þar á ferð! Þriðja mynda-saga hans er á bakhliðinni: Á teiknimyndafígúruströndinni... þar sem gamalkunnur metingur á ströndinni fer úr böndunum.

Reykjavík eftir myntbreytingu Jóns Ingibergs Jónsteinssonar er myndasaga sem gerist á afmörkuðu tímabili í sögu þjóðarinnar. Nefnilega Pönktímabilinu. Pönkið er allsráðandi í þjóðfélaginu rétt eftir myntbreytingu þegar þessi saga gerist sem segir frá þremur vinum á röltinu niðrí bæ. Tilvitnanir í texta íslenskra pönksveita þessa tíma fylgja sögunni. Framhald í næsta blaði.

Talandi um framhald; Úrg ala Buks unum eftir Jan Pozok heldur áfram í þessu blaði. Sóldís hefur gert samkomulag við Gunnar um að bindast honum gengt því að fá að sjá barnið sitt í síðasta skipti. Þegar hún svo birtist barni sínu verður barnfóstran vitni að því og þegar Sigurður Hinrik fréttir af því fer hann að gruna að hér sé ekki allt með felldu. Enn á ný verða lesendur að bíða óþreyjufullir eftir framhaldinu í næsta blaði. Uppgjör Sigurðar og Gunnars er í vændum! Jan Pozok er óþreytandi að vinna að þessu blaði og aftar í blaðinu er viðtal eftir hann. Ég las "Tinna í Tíbet" 100 sinnum.

Bjarni Hinriksson sýnir okkur inn í draumaheim sinn með myndasögu sinni Barokkborgin þar sem við ferðumst um landið og erum skyndilega stödd á stað sem virðist hafa byggst upp í algerri einangrun frá sögu landsins að öðru leyti. Þetta er saga um draum um borg á Íslandi sem afkomendur Tékka hafa reist fyrr á öldum og er nú hin reisulegasta barokkborg sem gaman væri að heimsækja.

Næsta saga gæti verið pæling eftir að hafa séð myndina “Avatar” í bíó nema hvað rúmur áratugur skilur á milli þess að sagan er teiknuð þangað til “Avatar” kemur fyrir sjónir almennings. Það sem Sagan endalausa eftir Þorstein S. Guðjónsson á sameigginlegt með myndinni eru pælingarnar með svefninn og mismunandi tilverustig eftir því hvort maður er sofandi eða vakandi. Hvert fer maður þegar manni dreymir og af hverju man maður ekki eftir því þegar maður vaknar? Önnur saga eftir sama höfund er aftast í blaðinu og er það sýnishorn af hljóðlausu rappi Blekrapp en hér er á ferðinni auglýsing fyrir Blekhópinn í hip-hop rapp-útgáfu!

Mickmo (Mick Morris) ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur með sögu sinni Lífs Orka heldur veltir fyrir sér grund-vallarspurningunni um tilgang lífsins. Samkvæmt kenningu hans er lífsstreð mannsins um margt líkt og lirfan sem þumlungast í átt að áfangastað. Hvað bíður okkar þegar hýðinu er kastað og í hvert stefnum við? Við vitum það ekki en svarið stendur þó hér svart á hvítu.

Fáránleiki stríðsbrölts er afhjúpaður í næstu sögu; Bombið borgina. Á vígvellinum fellur tár af hvarmi stríðsherrans. Þessi tilfinningaþrungna örsaga Zlatko Milenkovics segir meira en mörg orð og fær mann til að hugsa málið.