Viðtal tekið þann 15. apríl 2004 í Reykjavík af Jean Posocco

Ég kynntist Þorsteini fyrir 15 árum þegar ég var að klára mitt síðasta ár í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Ég var þá að leita mér að verkefni og datt í hug að sýna honum nýútkomna bók sem ég hafi myndskreytt. Honum leist vel á myndirnar og ég fékk samstundis handrit til að myndskreyta. Fleiri handrit fylgdu í kjölfarið og voru bækurnar orðnar all nokkrar áður en yfir lauk. Eins og margir vita, sem til mín þekkja er mitt helsta áhugamál myndasögur svo það er ekki furða að leiðir okkar Þorsteins lægju saman. En hann er frumkvöðull í útgáfu myndasögubóka á Íslandi. Hvernig hefur karlinn það? Hvernig væri að hitta hann og spjalla og gefa lesendum Bleks tækifæri til að heyra um upphaf myndasögunnar á Íslandi?

 

Blessaður Þorsteinn. Gaman að sjá þig aftur eftir svo langan tíma sagði ég þegar ég hitti hann þann 15.apríl síðastliðinn. Hann var í góðu formi og það geislaði af honum lífsgleðin þrátt fyrir að hann hafi fengið heilablóðfall fyrir þremur árum og slasast í bílslysi í lok síðasta árs.

Mig langar að vita Þorsteinn hvaðan kemur áhuggi þinn á myndasögum? Ég var við skjalarannsóknir í konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn árið 1969, þá 42 ára gamall. Ég beið við strætóskýli og var rétt nýbúinn að missa af vagninum þannig að ég þurfti að bíða í korter eftir þeim næsta. Á meðan ég beið var ég á rölti um götuna og gekk þá fram hjá tóbaksbúð og skoðaði í gluggann. Þar var ýmislegt til sýnis, en eitt vakti athygli mína. Það var myndasögubók um hetjuna Tinna. "Svaðilför í Surtsey" var það. Ég gekk inn í búðina og keypti nokkrar Tinnabækur.

Mér leist strax ljómandi vel á þennan skondna gaur. Þegar ég kom heim til Íslands hófst ég handa við að tryggja mér útgáfuréttinn á Tinna. Það gekk ágætlega. Ég hafði samband við Casterman í Belgíu og talaði við mann sem hét Servais. Við ræddum saman í símann en ákváðum að hittast bókasýingu í Frankfurt. Þar náði ég góðu sambandi við hann og hann sá að ég hafði burði til þess að gefa Tinna út á íslensku. Ég var heppinn vegna þess að Almenna Bókafélagið var líka á höttunum eftir Tinna en ég var rétt á undan og hreppti hann. Við sömdum um útgáfu á tveimur bókum: "Svaðilför í Surtsey" og "Dularfulla stjarnan". Hver bók var prentuð í 3000 eintökum.

Hvernig voru viðbrögð almennings?
Þessar bækur komu fyrst út 1971 og maður renndi blint í sjóinn með slíka útgáfu. Þær voru kynntar um jólin með stórri auglýsingu í Morgunblaðinu. Maður þurfti svo sem ekki mikið að aulgýsa því það voru börnin sem kynntu Tinna í kringum sig og lesendahópurinn stækkaði ört. Viðbrögðin voru slík að bækurnar seldust upp á 2 - 3 árum.

Sérstaklega "Svaðilför í Surtsey" sem eins og margir vita snerti marga íslendinga en ekki síður "Dularfulla stjarnan" þar sem hluti sögunnar gerist á Akureyrri. Þar stoppa Kolbeinn kafteinn og félagar til að taka olíu á skipið og halda svo áfram norður til Svalbarða. Eftir þetta var ekki aftur snúið og ég gaf út allar Tinnabækur á 7 árum eða til ársins 1977 þegar fjórar bækur litu dagsins ljós. Þar á meðal "Vandræði ungfrú Valíu Veinólínó" sem er mín uppáhalds Tinnabók. Hún er svo skemmtileg og fyndin. En vinsælasta Tinnabókin var "Krabbinn með gylltu klærnar."

Þú gafst Tinna út og svo Ástrík. Af hverju valdirðu ekki Sval og Val eða Viggó?
Ég var kominn í samskipti við Casterman sem gaf út Tinna og hafði myndað svo góð sambönd við þá. Þetta gekk vel en ég vildi ekki fara allt of geyst í útgáfu á myndasögubókum. Börnum líkaði mjög vel við Tinna og bækurnar seldust vel. En útgáfa á myndasögubókum var dýr. Það var svo árið 1974, þremur árum eftir að Tinni kom út fyrst, að ég ákvað að gefa út Ástrík sem Dargaud átti útgáfuréttindi á. Þeir voru með fjölbreytt úrval af myndasögum og úr nógu var að velja. Lukku Láki kom svo út stuttu seinna eða 1977. En Iðunn byrjaði með Sval og Val einmitt það sama ár frá Dupuis.

Það má með sönnu segja að þú hafir verið frumkvöðull í útgáfu á myndasögubókum...
Já og þessi útgáfa stóð til ársins 1991. Þá kom út síðasta bókin um Prins Valiant hjá okkur í stóru broti.

Talandi um Ástrík þá finnst mér að þýðingin sé stundum langt frá upprunalegum texta. Sem dæmi talar ástríkur um 1/2 herbergja íbúð í Breiðholti (Ástríkur í útlendingahersveitinni) eða sjónvarpsskjá sem er alls ekki í anda Ástríksumhverfisins. Hvað bjó á bak við slíka þýðingu?

Það var mjög skemmtilegt að þýða Ástrík. Það voru Þorbjörn Magnússon og Þór Stefánsson sem tóku að sér að þýða en ég bætti svo um betur og útfærði textann fyrir Íslendinga með íslenskum húmor. Það er stundum talað um "Þorsteins þýðingu" hvort sem um er að ræða barnabækur eða aðrar bækur. Annað hvort líkar mönnum hún eða ekki en hún hefur sett sérstakan svip á íslensku bókaflóruna. Besta Ástríksbókin er að mínu mati "Ástríkur heppni". Það var mikið fjör að þýða hana, grensulaust grín og gaman. En hún fjallar um víkingana Eirík Rauða og Leif Heppna. Alls komu út hjá Fjölva 18 Ástríksbækur.

 

Af hverju hætti Fjölvi allt í einu að gefa út myndasögubækur?
Þegar við fórum af stað með þessa útgáfu gátum við verið í samprenti með öðrum. Í kringum 1985 var það orðið erfiðara þannig að hver bók varð miklu dýrari í prentun. Þar að auki hafði áhugi á myndasögum dvínað, videóið hafði hafið innreið sína, og smátt og smátt drógum við okkur úr myndasöguútgáffu og Iðunn líka. Í dag erum við með Tinna á okkar snærum og stefnum að því að gefa þær út aftur á næstu misserum allar 24.

Að lokum, varstu ríkur af þessari útgáfu?
já, já. En ég eyddi öllu í vitleysu þ.e.a.s. í að gefa út listaverkabækur um Van Gogh, Rembrant og fleiri, segir Þorsteinn hlæjandi.

Með þessum orðum þakka ég Þorsteini og óska honum alls hins besta.
En til gamans er gott að rifja upp allar myndasögubækunar sem Fjölvi gaf út frá 1971.

Tinni - 22 bækur. Ástríkur - 18 bækur. Lukku Láki - 33 bækur. Alli, Sigga og Simbó - 2 bækur. Palli og Toggi - 5+4 bækur. Benni flugmaður - 3 bækur. Seinni heimsstyrjöldin - 5 bækur. Alex - 6 bækur. Indíánar sléttunar - 4 bækur. Landkönnuðir - 4 bækur. Prins Vallíant - 14 bækur. Vertu með bækurnar - 3 bækur. Siggi og Vigga - 10 bækur. Valerían - 1 bók. Amerískar myndasögur - 8 bækur. Hringadróttinssaga - 2 bækur.

Alls eru þetta 150 myndasögubækur!

Húrra fyrir Þorsteini!