Þorsteinn Sigurður Guðjónsson

Þorsteinn Sigurður Guðjónsson er fæddur 1970 í Reykjavík.

Hann er uppalinn í efra Breiðholti og útskrifaðist af listadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti 1989. Þaðan fór hann í Myndlista- og handíðaskóla Íslands í málaradeild þar sem hann nam fagrar listir til ársins 1993.

Til að víkka sjóndeildarhringinn var síðan tekinn kúrs sem Erasmus-skiptinemi við Kunstakademiet í Þrándheimi vorönnina árið 1994.

Nokkrar myndskreytingar fyrir kennslubækur Námsgagnastofnunar má finna eftir hann en annars hefur hann látið lítið fyrir sér fara á sviði myndlistar eftir námið. Það var á námskeiði til eflingar fyrir atvinnulausa árið 1996 sem Þorsteinn kynntist Blek-hópnum þar sem nokkrir þátttakendur komu saman undir stjórn Björns Vilhjálmssonar og ætluðu að búa til hasarblað. Síðan þá hefur hann tekið einhvern þátt í útgáfu blaðanna annað hvort með því að senda inn sögur eða skrifa greinar.

Hann skrifar t.d. umsagnirnar um allar sögurnar sem birst hafa í Bleki frá upphafi og hægt er að lesa hér á heimasíðunni.

Undanfarinn rúmlegan áratug hefur hann verið í fastri vinnu hjá Félagsstofnun stúdenta og sópað og skúrað fleiri gólf en hann kærir sig um að muna.