Ómar Smári

Smári er Rangæingur, þó hann hafi fæðst á sjúkrahúsinu á Selfossi. Hann er teiknari, þó hann hafi aldrei náð að klára að teikna heila myndasögubók. Hann er langskólagenginn, þó hann hafi gleymt flestu sem hann las. En sumt situr eftir. Tungumálin sem hann lærði kann hann enn - og teikniþörfin er ávallt til staðar. Henni var sinnt af krafti þegar Smári var lítill. Þá rúllaði hann hverri teiknimyndasögunni upp á fætur annarri. Þegar nær dró unglingsárum samdi hann langar sögur sem urðu til um leið og hann teiknaði.

En auðvitað kom aldrei til greina að sveitapilturinn leggði þetta fyrir sig sem atvinnu, enda lagðist teiknimyndagerðin af, samfara aukinni vinnu og námi. En enginn má sköpum renna. Í Kennaraháskólanum, var Smári á kolrangri hillu, nema hvað þar lærði hann ýmis tæknileg atriði og teikningu sem myndmenntakennarar þurfa á að halda. Þar blossaði upp gamla sköpunarþörfin sem sópaði honum beinustu leið inn í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þar upplifði Smári unglingsárin sín í annað sinn. Hann fór þaðan sem skiptinemi til Þýskalands, þar sem hann kynntist henni Nínu sinni, dásamlegum lífsförunaut, sem hvetur sinn mann til dáða í því sem honum þykir skipta máli.

Að nokkurra ára myndlistarnámi þeirra hjóna á Íslandi og í Þýskalandi loknu, fóru þau út í Æðey í Ísafjarðardjúpi. Þar dvöldu þau í 7 vetur við veðurathuganir og skepnuhald. Þar var afgangs tími til að sinna kölluninni. Þar lærði Nína á tölvu og Smári teiknaði myndasögur: hundruð örsagna og fáeinar fjölskyldu-ævintýrasögur til að gleðja sína nánustu með. En áður en hann hellti sér í eitthvert útgáfuhæft verk, voru Vestfirðingar búnir að uppgötva þau hjónin og hæfileika þeirra.

Síðan þá vinna Smári og Nína dag og nótt við allskonar umbrot og hönnun og myndskreytingar og tækifærismyndir og skýringarmyndir og allt mögulegt sem gera þarf og þeim þykir þjóna nógu góðum málstað. Þegar þau verða búin að gera allt sem gera þarf eða þegar Vestfirðingar og aðrir landsmenn verða komnir með leið á verkum þeirra, þá loksins fær ævilangur draumur að rætast: að gefa út almennilega teiknimyndasögubók.