neoblek haus
 
             JEAN ANTOINE POSOCCO (JAN POZOK)
eamil jean

jean

Jean er fæddur í Besançon í Frakklandi 1961.
Eftir 22 ára samveru með þjóð sem borðar froska og snigla, og án þess að finna sig almennilega í lífinu, ákvað hann einn góðan sumardag í ástarvímu að yfirgefa föðurlandið og heimsækja Ísland.
Í september 1983 var hann staddur í fyrsta sinn á þessari eyju norðursins og viti menn, hann hefur ekki snúið til baka.

Mjög fljótlega fékk hann vinnu á Íslandi. En eftir að hafa sópað gólf hjá fyrirtæki sem hann vann hjá í heilt ár var honum boðið að vinna í hönnunardeild fyrirtækisins sem hann og þáði. Í kjölfarið og með stuðningi eiginkonunnar skráði hann sig og komst inn í Myndlista-og handíðaskóla Íslands haustið 1985. Eftir fjögurra ára nám við skólann útskrifaðist hann sem grafiskur hönnuður og hlaut fyrstu verðlaun fyrir árangur. Samhliða náminu vann hann fyrir
sér sem auglýsingateiknari.
Eftir útskriftina fékk hann fjölbreytileg verkefni sem leiddi til þess að hann byrjaði að vinna sjálfstætt á sinni eigin teiknistofu “Froskur útgáfa” ásamt því að vinna á nokkrum auglýsingastofum.

Með tímanum áttaði hann sig á því að heimur auglýsinga með fölskum gylliboðum og skrumi höfðaði ekki lengur til hans svo hann snéri sér eingöngu að myndskreytingum bóka. Sumarið 1989 kom fyrsta bókin út sem hann myndskreytti: “Vala og vinir hennar” eftir Ingibjörgu Eiriksdóttur. Mörg ár eru liðin síðan þá og í dag eru bækurnar sem hann hefur myndskreytt  fjölmargar.

En var þetta draumur hans? Að hluta til en ekki alveg því frá því að hann var 7 ára hefur hann alltaf haft áhuga á myndasögum og ætlaði svo sannarlega að láta draumin rætast, verða myndasöguteiknari! Eins og margir vita þá er Ísland ekki beinlínis landið til þess. Fáar sem engar bækur eru gefnar út á Íslandi og útgefendur ekki áfjáðir um það. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að komast að sem slíkur í Frakklandi sá hann að á Íslandi væri kannski tækifærið til að vera myndasöguteiknari. En það voru ekki útgefendur sem hvöttu hann til dáða. Maður að nafni Björn Vilhjálmsson bauð honum einn sumardag 1996 að koma á fund til sín í “Hinu húsinu” og vera þátttakandi í hasarblaðinu Blek sem hann lagði grunninn að. Fyrsta blaðið var að koma út. Hann stóðst ekki freistinguna og birti sína fyrstu sögu í næsta blaði ári seinna. Sagan “Urg Ala Buks Unum” birtist í næstu 4 árgöngum. Frá og með öðru tölublaði Bleks var hann settur í ritstjórn blaðsins og situr hann þar enn í dag.

Árið 2003 fór hann til Angouleme mekka myndasöguáhugamanna og reyndi að selja sína afurð þar. Í fartaskinu voru íslenkir jólasveinar í nýjum búningi. En hans fyrstu viðtöl við útgáfu Vent d´Ouest voru svo mikil vonbrigði að hann ákvað að reyna ekki fyrir sér aftur í heimalandi sínu Frakklandi. Viss um að hann væri með gott efni í höndunum kom hann heim til Íslands og sannfærði JPV útgáfu um að gefa bókina út. Bókin “Rakkarapakk” kom út um jólin 2005 á þremur tungumálum, við sæmilegar undirtektir lesenda.

Jean hefur teiknað fyrir önnur blöð og tímarit. Tímaritið “Bílar og Sport” og FÍB blaðið.
Í dag einbeitir hann sér að útgáfu hasarblaðsins Blek sem heitir nú “Neo-Blek” samhlíða því að myndskreyta tilfallandi barnabækur. En í bígerð er útgáfa næstu bókar með jólasveinunum þar sem hann mun sjálfur stýra texta og myndum.

froskur utgafa