neoblek haus
 
  EYRÚN EDDA HJÖRLEIFSDÓTTIR

eyrun

Eyrún Edda Hjörleifsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1975 og hafði ung að árum afrekað að marglesa allar myndasögurnar í eigu Borgarbókasafnsins auk fjölmargra árganga af Andrési Önd á dönsku.

Árið 1995 lauk Eyrún stúdentsprófi frá eðlisfræðideild Menntaskólans í Reykjavík og útskrifaðist svo með B.Sc. gráðu í lífefnafræði frá Háskóla Íslands þremur árum síðar.

Samhliða menntaskóla- og háskólanámi tók Eyrún fjölmörg námskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík, bæði í teikningu, vatnslita- og olíumálun, skúlptúr og módelteikningu. Á þessu tímabili birti Eyrún þrjár sögur í myndasögublaðinu Bleki: Draugasöguna „Gamli kirkjugarðurinn“, hasarsöguna „Geimstúlkan Jósefína og Örlagasultan“ og heimspekilegu vísindaskáldsöguna „Hinn blákaldi veruleiki“.

Að loknu háskólanámi starfaði Eyrún hjá Íslenskri Erfðagreiningu í tvö ár og hélt svo til Stokkhólms í framhaldsnám í sameindalíffræði hjá Karolinska Institutet.

Árið 2009 ákvað Eyrún að segja skilið við vísindastörf og hóf nám í þrívíddargrafík við tölvuleikjaskólann Futuregames Academy í Stokkhólmi. Þar náði Eyrún tökum á þrívíddarforritinu Maya og valdi hreyfimyndagerð sem sérsvið á síðari hluta námsins.

Eyrún mun útskrifast úr Futuregames Academy haustið 2011 en síðustu sjö mánuðir námsins felast í að starfa sem lærlingur hjá fyrirtæki sem fæst við tölvugrafík.

Eyrún vonast til að fá vinnu við hreyfimyndagerð og þrívíddargrafík að námi loknu.

froskur utgafa